Forseti heldur til Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem hann leiðir íslenska sendinefnd á fund bandarískra stórfyrirtækja í tækniiðnaði. Markmið ferðarinnar er að sýna forsvarsmönnum þessara fyrirtækja fram á mikilvægi þess að íslensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýjustu máltæknilausnum svo unnt verði að tala íslensku við tölvur og tæki og tryggja þannig framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi.
Auk forseta er sendinefndin skipuð Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms, Jóni Guðnasyni, forstöðumanni Gervigreindarseturs Háskólans í Reykjavík, og Vilhjálmi Þorsteinssyni, stofnanda hugbúnaðarfyrirtækisins Miðeindar, auk Stefaníu Guðrúnu Halldórsdóttur stjórnarformanni Almannaróms og Björgvin Inga Ólafssyni, stjórnarmanni Almannaróms.