Til hamingju, Laufey! Sú frábæra söngkona er svo sannarlega vel komin að Grammy-verðlaunum sínum sem hún hlaut í gær. Í byrjun árs hlotnaðist mér sá heiður að afhenda Laufeyju Bjartsýnisverðlaunin og sá þá vel hversu einlæg og sönn hún er í sinni listsköpun. Um leið fann ég hve náin hún er foreldrum sínum og tvíburasystur. Öll fjölskyldan á því skilið þessar heillaóskir.
Í nýliðinni viku naut ég þess einnig að afhenda Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, auk Blóðdropans, Íslensku glæpasagnaverðlaunanna. Einvalalið var tilnefnt en verðlaunin hlutu Gunnar Helgason og Rán Flygenring í flokki barna- og ungmennabóka, Haraldur Sigurðsson fyrir fræðirit og rit almenns efnis og Steinunn Sigurðardóttir í flokki skáldverka. Þá hlaut Eva Björg Ægisdóttir Blóðdropann. Til hamingju, öllsömul!
Síðasta vika var annars viðburðarík að vanda. Sendiherrar fjögurra ríkja afhentu trúnaðarbréf sín á Bessastöðum. Þeir voru frá Egyptalandi, Gíneu, Kúveit og Perú. Einnig átti ég í bréfaskiptum við Harald Noregskonung. Hann sendi Grindvíkingum samúðarkveðju fyrir hönd norsku þjóðarinnar vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga og þakkaði ég að bragði þann vinarhug. Færeyingar hafa sömuleiðis sýnt að þeir eru vinir í raun, og ekki í fyrsta sinn. Ég færði bæði lögmanni Færeyja og Rauða krossinum þar þakkir fyrir söfnun Færeyinga til styrktar Grindvíkingum.
Framadagar voru settir í Háskólanum í Reykjavík á fimmtudag. Þar gátu háskólanemar kynnt sér starfsemi ýmissa fyrirtækja og stofnana. Í stuttu ávarpi hvatti ég nemana til að finna fjölina sína, elta eigin drauma og stefna að því að láta þá rætast, sjálfum sér og samfélaginu til heilla.
Gaman er að finna þá grósku sem gætir í íslenskri nýsköpun. Á föstudaginn var afhenti ég upplýsingatækniverðlaun SKÝ á UT-messunni svonefndu og þótti mér sérlega vænt um að hugbúnaðarfyrirtækinu Miðeind hlotnaðist sá heiður í ár. Þar vinnur öflugur hópur sérfræðinga á sviði gervigreindar og máltækni eins og ég veit frá fyrstu hendi. Í kjölfar heimsóknar minnar ásamt sendinefnd til Kísildals í maí 2022 tók Miðeind upp samstarf við gervigreindarfyrirtækið OpenAI um að styðja íslensku í risamállíkönum á borð við GPT-4. Miðeindarliðar taka einnig þátt í stóru Evrópuverkefni ásamt Háskóla Íslands þar sem þróað verður risamállíkan fyrir íslensku og önnur germönsk mál. Allt er þetta mikilvægt framlag til að tryggja sess tungumálsins til framtíðar í stafrænum heimi.
Á föstudagskvöld var svo opið hús hér á Bessastöðum í tilefni Safnanætur og þótti mér vænt um hversu margt fólk lagði leið sína hingað þrátt fyrir hvassviðri og él á köflum. Landsmenn bera virðingu fyrir þessum fallega stað, virðingu sem er samofin hlýju eins og vera ber.
Eliza gat ekki verið gestgjafi mér við hlið á opnu húsi eins og venjulega þar sem hún flaug til Dubai í vikubyrjun. Þar tók hún þátt í fyrirlestri og pallborðsumræðum um jafnréttismál og fleira. Áður en hún flaug utan afhenti Eliza verðlaun í ritlistarsamkeppni fyrir ungmenni sem Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stóð fyrir. Eliza er verndari félagsins og var jafnframt formaður dómnefndar í samkeppninni.
Á laugardag sótti ég Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur og veitti þar nýsveinum viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi. Í ávarpi ræddi ég sem fyrr um mikilvægi fjölbreytts og kröftugs iðnnáms og hvers kyns iðngreina í samfélaginu. Gott var að sjá einu sinni enn hversu vandað er til verka á þessum viðburði. Um helgina sótti ég líka þorrablót Álftaness sem kvenfélagið hér og Lions-klúbburinn standa að. Gaman er að halda í þá þjóðlegu hefð með sveitungum á Álftanesi.
Um þessa viðburði og fleira má lesa á vefsíðu embættisins forseti.is. Njótið vikunnar.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 5. febrúar 2024.