Forsetahjón heimsækja Grindavík og ræða við heimamenn um jarðhræringar sem valdið hafa usla á Reykjanesskaga og viðbúnað við þeim. Fannar Jónasson bæjarstjóri tók á móti forsetahjónum á skrifstofum Grindavíkurbæjar þar sem þau ræddu við fulltrúa bæjarstjórnar og starfsfólk. Næst litu þau við hjá ungmennum að störfum á vegum Vinnuskóla Grindavíkurbæjar. Þaðan var haldið niður á höfn þar sem forsetahjón heimsóttu skrifstofur útgerðarinnar Þorbjörns og fylgdust með löndun úr frystitogaranum Hrafni Sveinbjörnssyni.
Forsetahjón voru gestir á vikulegum fundi eldri borgara í Kviku, menningarhúsi Grindavíkur. Þau litu við í versluninni Blómakoti, þar sem tjón varð í skjálftunum og snæddu að því loknu hádegisverð ásamt heimilisfólki á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð. Heimsókninni í Grindavík lauk með kaffisopa á Bryggjunni þar sem rætt var við starfsfólk og gesti.
Myndasafn frá heimsókn forsetahjóna til Grindavíkur 3. ágúst 2022.
Pistill forseta síðar sama dag: Eldgos hafið á ný