• Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson
Fréttir | 07. nóv. 2022

Fyrirlestraferð til Bandaríkjanna

Forseti heldur í fyrirlestraferð til Bandaríkjanna og heimsækir þar þrjá háskóla. Á morgun þriðjudag flytur forseti minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar við Dartmouth College í New Hampshire. Fyrirlesturinn er haldinn í boði Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og The Institute of Arctic Studies við Dartmouth háskóla en Vilhjálmur starfaði síðustu æviárin við þennan háskóla sem hýsir bókasafn hans. Fyrirlestur forseta mun fjalla um sjálfstæði og alþjóðasamstarf í ljósi reynslu Íslands, þjóðernishyggju og hnattvæðingar.

Á miðvikudaginn heimsækir forseti Williams College í Massachusetts þar sem efnt verður til samræðufundar forseta með dr. Magnúsi Bernharðssyni, prófessor í sagnfræði, um ímynd Íslands og alþjóðlega stöðu. Fimmtudaginn 10. nóvember heimsækir forseti svo Cornell háskóla í Íþöku í New York ríki en sá skóli hefur átt margþætt samstarf við Íslendinga. Fyrsti bókavörður skólans, Daniel Willard Fiske, var mikill Íslandsvinur og safnaði íslenskum bókum sem nú eru varðveittar í safni skólans. Á undanförnum árum hefur Cornell átt í samstarfi við Geothermal Resource Park á Íslandi um nýtingu jarðhita og af því tilefni verða nokkrir fulltrúar GRP og íslenskra stjórnvalda í för með forseta í þessari heimsókn. Forseti mun flytja fyrirlestur í Cornell sem ber heitið „Can small states make a difference? The case of Iceland on the international scene.“

Forseti flýgur aftur til Íslands á föstudag.

Fréttatilkynning.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar