Forseti heimsækir Williams College, háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum, og situr þar í pallborði og ræðir við Magnús Bernharðsson, prófessor í sagnfræði, um Ísland nútímans, ímynd þess, alþjóðlega stöðu og tengd efni. Viðburðinum var streymt á vef Williams College og sjá má upptökuna hér.
Skólinn er talinn einn af bestu háskólum landsins og meðal greina sem þar hafa sterka stöðu eru sagnfræði, listfræði og hagfræði. Í heimsókn sinni skoðaði forseti meðal annars bókasafnið á staðnum sem státar af frumriti stjórnarskrár Bandaríkjanna og fleiri fágætum ritum. Þá hitti forseti að máli rektor skólans og allmarga úr hópi stjórnenda og nemenda, auk Íslendinga sem þarna búa eða starfa. Jafnframt sat forseti fyrir svörum hjá blaðamönnum skólablaðsins á staðnum.