Forseti heimsótti í dag Cornell háskóla í norðanverðu New York fylki og flutti þar fyrirlestur um Ísland í ljósi alþjóðatengsla, ímynd Íslands, þjóðernishyggju og fleira og svaraði að því búnu fyrirspurnum frá kennurum og nemendum við skólann. Viðburðinum var streymt á vef Cornell og má sjá upptökuna hér.
Forseti átti einnig fund með stjórnendum skólans og forystumönnum á sviði hreinnar orku og voru fulltrúar Geothermal Resource Park á Íslandi með í för. Þau skrifuðu ásamt fulltrúum Cornell undir sameiginlega viljayfirlýsingu um að setja upp rannsóknarsetur endurnýjanlegra orkugjafa og sjálfbærni á Íslandi við þetta tækifæri. Í heimsókninni kynnti forseti sér hvernig háskólinn notar vatn úr nálægu stöðuvatni og varmaskipta til að kæla byggingar að sumarlagi og sparast með því veruleg orka. Þá skoðaði forseti og fræddist um borholu við skólann sem hefur verið notuð í rannsóknaskyni og til undirbúnings nýtingu á jarðhita og að síðustu kynnti hann sér rafmagnsframleiðslu skólans með sólarsellum en uppsett afl þeirrar virkjunar er rúmlega 20 megavött.