Forseti heimsækir héraðið Fukushima í Japan, í boði japanskra stjórnvalda. Gríðarmikið hreinsunar- og uppbyggingarstarf hefur farið fram í Fukushima eftir kjarnorkuslysið í Daiichi kjarnorkuverinu í mars 2011. Ráðstafanir vegna geislavarna eru enn miklar við kjarnorkuverið en þar eru nú einnig stundaðar rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum, aukinni jarðvarmanýtingu og framleiðslu vetnis.
Forseti átti fundi með Uchibori Masao, héraðsstjóra Fukushima, og ræddi við bæjarstjóra nokkurra sveitarfélaga héraðsins sem þurfti að rýma í hamförunum. Þeirra á meðal var bæjarstjóri Futaba þar sem fyrstu íbúar sneru fyrst aftur í ágúst á þessu ári, rúmum 11 árum eftir kjarnorkuslysið. Loks ræddi forseti við unga frumkvöðla sem vinna að þróun rafmagnsflygildis og dróna sem ætlaðir eru til aðstoðar við björgunarstörf.