Forseti heimsækir Vestmannaeyjar og flytur ávarp á minningarviðburði vegna eldgossins í Heimaey. Fimmtíu ár eru í dag liðin frá því gosið hófst þann 23. janúar 1973 og minnast Eyjamenn hamfaranna með margvíslegum hætti.
Að morgni dags var haldinn minningarfundur í bæjarstjórn Vestmannaeyjarbæjar þar sem forseti var gestur og flutti ávarp. Þá heimsótti hann ýmsar stofnanir bæjarins og ræddi við heimamenn á öllum aldri. Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum ávarpaði forseti nemendur skólans á sal í tengslum við þátttöku þeirra í lýðræðisverkefni UNESCO. Því næst leit hann inn á dagdvöl aldraðra og ræddi við þau um minningar þeirra frá eldgosinu.
Síðar um daginn heimsótti forseti hjúkrunarheimilið Hraunbúðir ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og ræddi þar við íbúa. Á bókasafni Vestmannaeyja hitti forseti sjálfboðaliða sem taka þátt í prjónaverkefni til undirbúnings goslokahátíð í sumar. Forseti hleypti verkefninu formlega af stokkunum. Einnig heimsótti hann Þekkingarsetur Vestmannaeyja og fékk þar kynningu á fjölbreyttri starfsemi.
Loks tók forseti þátt í blysför sem farin var frá Landakirkju að Eldheimum. Þar tók við hátíðarviðburður þar sem forseti og forsætisráðherra fluttu ávörp, auk bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Viðburðinum var að hluta sjónvarpað beint í Kastljósi og má sjá upptökuna á vef ríkissjónvarpsins. Ávarp forseta má lesa hér.