Forseti tekur á móti þremenningum sem stóðu að undirskriftasöfnun vegna laga um breytingu á lögum um útlendinga. Þau lög voru samþykkt á Alþingi 15. mars síðastliðinn. Á fundinum kom fram að rúmlega 2.100 manns hefðu ritað undir þá áskorun til forseta Íslands „að nýta neitunarvald sitt í þeim tilgangi að stöðva atlögu Alþingis til að lögfesta ómannúðlegt útlendingafrumvarp“. Á fundinum röktu gestirnir, þau Aníta Sóley Scheving Þórðardóttir, Askur Hrafn Hannesson og Íris Björk Ágústsdóttir, þau sjónarmið sem búa að baki undirskriftasöfnuninni og lesa má um í aðfaraorðum undirskriftalistans.
Forseti fór yfir athugunarefni sem lúta að ótvíræðum rétti hans til synjunar laga sem Alþingi hefur samþykkt þannig að þau öðlist eigi að síður gildi en verði lögð í dóm kjósenda til staðfestingar eða synjunar. Því valdi beri að beita af varfærni og þegar það hafi verið gert fyrr á þessari öld hafi það ekki síst byggst á áskorunum tugþúsunda kjósenda. Forseti nefndi einnig þær tillögur að breytingum á stjórnarskrá, sem lagðar hafa verið fram eða ræddar hér á landi, að kjósendur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Í þeim efnum hefur verið rætt um að tiltekinn hluti þurfi að hafa samþykkt slíka kröfu, til dæmis tíundi hluti eða fjórðungur kjósenda. Forseti nefndi einnig að einungis dómstólar geta skorið úr um það hvort lög standist stjórnarskrá eður ei, ekki forseti eða kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Loks þakkaði forseti þremenningunum fyrir þeirra atbeina og kvaðst telja víst að áfram yrði tekist á um lagaramma útlendingamála á Íslandi, innan Alþingis sem utan. Að kvöldi dags staðfesti forseti téð lög.