Forseti ávarpar þing Evrópuráðsins í Strassborg. Þetta er í annað sinn sem hann tekur þátt í dagskrá og tvíhliða fundum í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Í nóvember 2022 var forseti sérstakur gestur á fundi ráðherranefndar ráðsins. Að þessu sinni var megintilgangur ferðarinnar að flytja ávarp á þingi Evrópuráðsins, sem kemur saman fjórum sinnum á ári.
Í ávarpi sínu fór forseti meðal annars yfir helstu áherslur í formennsku Íslands og markmið um að fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins, sem fram fer í Reykjavík í maí, verði til þess að styrkja enn frekar samstöðu Evrópuríkja gegn innrásinni í Úkraínu. Þá ræddi hann þær hættur sem stafa af öfgafullri þjóðernishyggju, líkt og innrásin í Úkraínu sýni, en um leið ávinning þess að ala á heilbrigðri ættjarðarást og virðingu fyrir fjölbreytileika menningar og tungumála í alþjóðasamstarfi.
Í kjölfar ávarpsins svaraði forseti fyrirspurnum þingmanna Evrópuráðsins. Sama dag átti hann tvíhliða fundi með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, Mariju Pejčinović Burić, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins og Dunju Mijatović, mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins. Þá fundaði forseti með Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
Ávarp forseta má lesa hér og upptöku af ávarpi forseta má nálgast hér.