Fréttir | 03. maí 2023

Eyrarrósin

Eliza Reid forsetafrú flytur ávarp og afhendir Eyrarrósina, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins, við hátíðlega athöfn á Hvammstanga. Forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar sem var nú afhent í 18. sinn. Að þessu sinni hlaut Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði viðurkenninguna og tók Aðalheiður Eysteinsdóttir á móti viðurkenningunni og verðlaunafé. Eyrarrósarhafa verður jafnframt boðið að standa að viðburði á Listahátíð 2024 og að auki verður framleitt heimildamyndband um verkefnið.

Auk þess voru Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar veitt í annað sinn, til þriggja nýrra menningarverkefna sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og burði til þess að festa sig í sessi. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2023 hlutu Alþjóðleg píanóhátíð á Vestfjörðum (Vesturbyggð), Hnoðri úr norðri (Akureyri), og Raddir úr Rangárþingi (Hellu). Nánar má lesa um verkefnin á vefsíðu Eyrarrósarinnar.

Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar