• Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
  • Ljósmynd/Jessica Auer @strondinstudio
  • Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
  • Ljósmynd/Jessica Auer @strondinstudio
  • Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
  • Ljósmynd/Jessica Auer @strondinstudio
  • Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
  • Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
  • Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
  • Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
  • Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
Fréttir | 10. maí 2023

Fjarðabyggð

Forseti fer í opinbera heimsókn í Fjarðabyggð. Heimsóknin stóð í þrjá daga og ferðaðist forseti vítt og breitt um sveitarfélagið, heimsótti helstu stofnanir þess, kynnti sér atvinnu- og menningarlíf og ræddi við fólk á öllum aldri.

Myndasafn frá opinberri heimsókn forseta má sjá hér.

Heimsóknin hófst að morgni mánudagsins 8. maí með fundi á bæjarskrifstofum Fjarðabyggðar á Reyðarfirði. Þaðan lá leiðin til Norðfjarðar þar sem forseti heimsótti efri byggðir Neskaupstaðar og kynnti sér áhrif snjóflóðanna sem þar féllu í mars. Í Neskaupstað heimsótti hann einnig Umdæmissjúkrahús Austurlands, Síldarvinnsluna og samvinnuhúsið Múlann sem er miðstöð nýsköpunar í Fjarðabyggð. Síðdegis var siglt til Mjóafjarðar. Þar búa að jafnaði um tíu manns í einni afskekktustu byggð landsins og var efnt til kaffisamsætis með íbúum. Um kvöldið bauð bæjarstjórn Fjarðabyggðar forseta og fylgdarliði til móttöku og kvöldverðar í Skrúð á Fáskrúðsfirði.

Á þriðjudag lá leið forseta til Breiðdalsvíkur og á Stöðvarfjörð. Þar ræddi hann við nemendur grunnskólans sem er samrekinn og sækja börnin kennslu til skiptis milli byggðarlaganna tveggja. Forseti heimsótti einnig Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði en þar hafa listamenn frá ýmsum löndum aðstöðu til sköpunar í gamla hraðfrystihúsinu sem verið er að gera upp. Forseti snæddi svo hádegisverð með eldri borgurum á Stöðvarfirði en að því loknu hélt hann til Fáskrúðsfjarðar. Þar heimsótti hann hjúkrunarheimilið Uppsali, Skólamiðstöð Fáskrúðsfjarðar og Loðnuvinnsluna.

Í lok dags á þriðjudag efndi bæjarstjórn Fjarðabyggðar til hátíðarsamkomu í Menningarmiðstöðinni á Eskifirði fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Þar fluttu  forseti og Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar ávörp og skipst var á gjöfum. Ávarp forseta má lesa hér.

Miðvikudaginn 10. maí hélt forseti til Reyðarfjarðar þar sem hann heimsótti leik- og grunnskóla bæjarins og vinnustaðinn Launafl. Þá snæddi forseti hádegisverð með starfsfólki í mötuneyti Alcoa Fjarðaáls sem er fjölmennasti vinnustaður sveitarfélagsins. Eftir hádegi heimsótti forseti Hjúkrunarheimilið á Eskifirði, netagerðina Egersund og fékk kynningu á starfsemi Laxa fiskeldis um borð í þjónustubáti fyrirtækisins.

Opinberri heimsókn í Fjarðabyggð lauk síðdegis á miðvikudag með skoðunarferð um nýtt íþróttahús á Reyðarfirði, þar sem forseti leit inn á glímuæfingu ungmenna. Að síðustu heimsótti forseti sauðfjárbúið Sléttu í Reyðarfirði, þar sem sauðburður stendur yfir.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar