Forsetahjón heimsækja Kanada í boði Mary Simon landstjóra. Þetta er fyrsta ríkisheimsókn frá Íslandi til Kanada frá árinu 2000 og er markmið hennar að styrkja enn frekar hin margþættu tengsl landanna sem fögnuðu 75 ára afmæli stjórnmálasambands á síðasta ári. Þetta er jafnframt fyrsta ríkisheimsókn sem stjórnvöld í Kanada bjóða til eftir heimsfaraldurinn.
Með í för er sendinefnd skipuð Lilju Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarmálaráðherra, Pétri Þ. Óskarssyni, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, Jóni Sigfússyni, stjórnarformanni Planet Youth, og Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms, auk Hlyns Guðjónssonar sendiherra í Kanada. Þá fylgir forseta fjöldi fulltrúa úr viðskiptalífinu sem hyggjast efla samstarf við Kanada, meðal annars á sviði nýsköpunar í sjávarútvegi, heilsutækni og við nýtingu grænnar orku.
Hátíðleg móttökuathöfn
Heimsóknin hófst að morgni mánudagsins 29. maí með hátíðlegri athöfn við landstjórabústaðinn Rideau Hall í höfuðborginni Ottawa. Þar tóku Mary Simon landstjóri og eiginmaður hennar Whit Fraser á móti forsetahjónum að viðstöddum heiðursverði kanadíska hersins. Athöfnin var opin almenningi. Þá fór fram táknræn athöfn í almenningsgarðinum við landstjórabústaðinn þar sem forsetahjón gróðursettu tré, við hlið trés sem Vigdís Finnbogadóttir gróðursetti á Íslendingadaginn 1. ágúst árið 1989.
Forseti átti fund með landstjóra þar sem rætt var um sameiginlega sögu og framtíðarhagsmuni Íslands og Kanada. Að því loknu hélt forseti til þinghússins á Parliament Hill þar sem hann átti fund með Justin Trudeau forsætisráðherra. Nánar er sagt frá fundi þeirra hér.
Lýðheilsa ungmenna og varðveisla tungumála
Eftir hádegi var efnt til tveggja funda í tilefni heimsóknar forseta og sendinefndar. Á þeim fyrri var fjallað um varðveislu tungumáls í fámennum málsamfélögum og kynntar aðferðir í notkun máltæknilausna á íslensku. Nánar má lesa um þann fund hér.
Á síðari fundinum var sjónum beint að lýðheilsu ungmenna. Þar ræddu fulltrúar frá Planet Youth á Íslandi við kanadísk heilbrigðismálayfirvöld um íslenska forvarnarverkefnið sem innleitt hefur verið víða um lönd, þar á meðal í Kanada, undir merkjum Planet Youth. Nánar má lesa um þann fund hér.
Hátíðarkvöldverður í Rideau Hall
Að kvöldi fyrsta dags hinnar opinberu heimsóknar buðu landstjórahjón Kanada til hátíðarkvöldverðar í Rideau Hall til heiðurs forsetahjónum. Kvöldverðinn sótti einnig Justin Trudeau forsætisráðherra og eiginkona hans Sophie Trudeau, Lilja Alfreðsdóttir og aðrir fulltrúar úr sendinefnd forseta, auk fjölda gesta sem vinna að tengslum Íslands og Kanada bæði í atvinnu- og menningarlífi.
Í ræðu sinni þakkaði forseti fyrir þá gestrisni og góðvild sem þau hjónin og föruneyti þeirra hefðu notið í heimsókninni. Þá minntist forseti á sögu Íslendinga í Vesturheimi og þróun íslenskrar tungu, og hvatti til aukinna samskipta Íslands og Kanada á öllum sviðum. Ávarp forseta má lesa á íslensku hér og á ensku hér og á frönsku hér.
Ríkisheimsókn forsetahjóna og sendinefndar heldur áfram næstu daga í Nova Scotia, Nýfundnalandi og Labrador og lýkur í Toronto.