Forsetahjón héldu áfram opinberri heimsókn sinni til Kanada á þriðjudag og héldu til Halifax í Nova Scotia. Þar hófst dagurinn á fundi forseta með Arthur J. LeBlanc fylkisstjóra og konu hans, Patsy LeBlanc. Rætt var um samskipti Íslands og Halifax gegnum tíðina en þar hefur löngum verið viðkomustaður farskipa okkar í Ameríkusiglingum. Næst tók við hádegisverðarfundur forseta með íslenskri viðskiptasendinefnd og fulltrúum úr viðskiptalífi Halifax og var þar fjallað um ýmis sóknarfæri, svo sem á sviði heilbrigðistækni, í ferðamennsku og fjármálastarfsemi.
Á sama tíma ávarpaði Eliza Reid forsetafrú fund um þátttöku kvenna í viðskiptum og opinberu lífi og var hann skipulagður af International Women's Forum.
Næst á dagskrá forseta var kynning á COVE, viðskipta- og þróunarsetri sjávarútvegsins í fylkinu. Þann fund sátu einnig fulltrúar úr íslensku viðskiptalífi og fengu leiðsögn um verkefni setursins og víðtækt, alþjóðlegt samstarf.
Forsetafrúin sat fund um fíkniefnaforvarnir og geðvernd sem haldinn var að frumkvæði Planet Youth á Íslandi og heilbrigðisyfirvalda í Nova Scotia og tók hún þar þátt í umræðum með ráðherra þessa málaflokks.
Fundadagskránni síðdegis lauk með heimsókn í Innflytjendasafnið (Canadian Museum of Immigration) þar sem forseti flutti fyrirlestur um Vesturhafsferðir Íslendinga á 19. öld og ræddi í pallborði við ráðherra vinnumarkaðs- og innflytjendamála. Loks ávarpaði hann móttöku sem þarna var haldin í boði Íslandsstofu.
Þess má geta að þessa dagana geisa skógareldar í Nova Scotia og margir hafa orðið fyrir miklum missi af þeim völdum. Vegna eldanna var fjölmennum hátíðarkvöldverði breytt í lágstemmdari kvöldverð. Fulltrúar íslenskra fyrirtækja og stofnanna sóttu þann viburð.
Myndasafn frá ríkisheimsókn forsetahjóna má sjá hér.