Forsetahjón héldu áfram ferð sinni um Kanada í dag, miðvikudag. Að morgni átti forseti fund með Steve Craig, sjávarútvegsráðherra Nova Scotia, og Tory Rushton, ráðherra auðlinda- og orkumála. Var þar meðal annars vikið að sameiginlegum hagsmunum landanna á sviði fiskveiða og fiskeldis auk þess sem rætt var um umhverfisvæna orkuframleiðslu.
Að þessum fundi loknum héldu hjónin með flugi til St. John's á Nýfundnalandi sem verið hefur mikilvæg miðstöð sjávarútvegs á austurströnd Kanada. Að loknum fundi með Andrew Furey, forsætisráðherra fylkisins, hélt forseti í Fisheries and Marine Institute, haf- og fiskirannsóknastofnun við Memorial háskólann. Þar var málstofa um samstarfstækifæri fylkisins og Íslendinga á sviði sjávarútvegs og tengdra tæknigreina. Auk forseta sátu þennan fund fulltrúar úr viðskiptasendinefnd Íslendinga og kanadískir sérfræðingar og athafnamenn í greininni.
Á sama tíma tók forsetafrú þátt í pallborðsumræðum með kanadískum rithöfundum í menningarhúsinu The Rooms og var efnt til þeirra í tilefni af heimsókn Elizu.
Þá hélt forseti fyrirlestur um fiskveiðideilur Íslendinga við Breta og fleiri grannþjóðir á 20. öld og sat fyrir svörum um það efni. Þessi fundur fór einnig fram í The Rooms og verður honum sjónvarpað síðar á Nýfundnalandi. Andrew Furey forsætisráðherra kynnti forseta og flutti ávarpsorð í upphafi fundarins. Að þessum viðburði loknum var efnt til móttöku þar sem forsetahjón hittu meðal annars Íslendinga sem búa á þessum slóðum.