Forsetahjón ljúka fjögurra daga ríkisheimsókn til Kanada í St. John's, höfuðborg Nýfundnalands og Labrador.
Sjá myndasafn frá heimsókninni. Fregnir af fyrsta degi heimsóknarinnar í Ottawa má lesa hér, frá degi tvö í Halifax má lesa hér og fréttir frá þriðja degi hér.
Á fjórða degi var var boðað til hringborðsumræðna með íslenskum og kanadískum frumkvöðlum á sviði heilsutækni í nýsköpunarmiðstöðinni Health Innovation Acceleration Center í St. John's. Forseti flutti þar opnunarávarp og ræddi um mikilvægi forvirkra aðgerða og tækninýjunga í heilbrigðiskerfinu. Fulltrúar íslensku nýsköpunarfyrirtækjanna Kerecis og Prescriby sögðu frá starfi sínu og hið sama gerðu fulltrúar kanadísku heilsutæknifyrirtækjanna Luxsonic og EVA. Þá var rætt um frekara samstarf milli Íslands og Nýfundnalands og Labrador á sviði heilsutækni.
Á sama tíma flutti Eliza Reid forsetafrú opnunarávarp við hringborðsumræður um það fordæmi sem Ísland hefur sett í sjálfbærri orkunýtingu. Umræðurnar voru hluti af ráðstefnunni Energy NL sem fer árlega fram í St. John's. Fulltrúar Landsvirkjunar kynntu þar verkefni sín bæði innan og utan Íslands og hið sama gerðu fulltrúar kanadíska orkufyrirtækisins Growler Energy. John Cowan, varaorkumálaráðherra Nýfundnalands og Labrador, stýrði umræðum, en rætt var um fyrirhugað aukið samstarf fylkisins við íslensk fyrirtæki á sviði grænnar orku.
Frá St. John's stóð til að fljúga til Toronto þar sem forseti hugðist eiga fund með fylkisstjóra Ontario. Þar hafði Íslandsstofa einnig boðað til íslensks markaðsdags til að leiða saman kanadíska fjárfesta og fulltrúa íslensks viðskiptalífs, ásamt forseta. Vegna langra tafa á flugi frá Nýfundnalandi og Labrador varð hins vegar að aflýsa viðburðunum í Toronto.
Þess í stað fengu forsetahjón leiðsögn um Signal Hill, sögulegan útsýnisstað í St. John's og snæddu hádegisverð með íslensku viðskiptasendinefndinni áður en forseti hélt til Íslands og forsetafrú til Toronto í einkaerindum.