Eliza Reid forsetafrú sækir heimsleika Special Olympics í Berlín. Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi sendi 30 íslenska keppendur, víða að af landinu, til þátttöku í tíu íþróttagreinum, en alls tóku þátt um 7000 keppendur frá 190 löndum.
Heimsleikarnir voru settir á Ólympíuleikvanginum í Berlín að kvöldi laugardagsins 17. júní. Forsetafrú tók þátt í setningarathöfninni og fylgdi íslenska keppnishópnum þegar gengið var fylktu liði inn á leikvanginn og ólympíueldurinn loks kveiktur. Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, tók einnig þátt með sama hætti.
Næstu daga á eftir sótti forsetafrú íþróttaviðburði þar sem íslenskir keppendur tóku þátt, hitti þjálfara og starfsmenn og hvatti íslenska hópinn til dáða.