Forsetahjón eru heiðursgestir á Fiskideginum mikla, bæjarhátíð Dalvíkinga. Hátíðin er nú haldin í 20. sinn, eftir þriggja ára hlé vegna covid-heimsfaraldurs. Við setningu hátíðarinnar á föstudag flutti Eliza Reid forsetafrú ræðu sem helguð er vináttukveðjunni. Í máli sínu minnti hún á mikilvægi viðburða eins og Fiskidagsins fyrir samfélagið og nefndi einnig að um þessar mundir eru 20 ár frá því að hún flutti til Íslands. Þá gengu forsetahjón með Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur sveitarstjóra milli heimila á Dalvík á fiskisúpukvöldinu, þáðu veitingar og spjölluðu við heimamenn og gesti.
Á laugardag fór fram hátíðardagskrá við höfnina þar sem forseti flutti hátíðarræðu Fiskidagsins mikla. Sagði hann meðal annars að þótt fólk í öflugu lýðræðissamfélagi hljóti að greina á um stórt sem smátt sé brýnt að hampa því einnig sem eigi að sameina landsmenn, virðing fyrir sameiginlegum gildum, víðsýni og umburðarlyndi, auk vilja til að efla og styrkja tungumál okkar og hjálpa þeim sem hingað flytjast að læra það og nota. Á hátíðinni var erlent verkafólk á Dalvík heiðrað og afhenti forseti heiðursskjöl til fimm fulltrúa fiskvinnslufyrirtækjanna á Dalvík, Marúlfa, Valeska, Samherja og Erlent ehf.