Forsetahjón fara í opinbera heimsókn til Akureyrar á morgun, föstudaginn 25. ágúst, og stendur heimsóknin í tvo daga.
Heimsóknin hefst með fundi forsetahjóna með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra, bæjarstjórn og sviðsstjórum Akureyrarbæjar í Ráðhúsinu. Þá munu forsetahjónin heimsækja leikskólann Klappir, Naustaskóla og Verkmenntaskólann á Akureyri. Auk þess fara þau á dvalarheimilið Hlíð, Skógarlund – miðstöð vinnu og virkni og Sjúkrahúsið á Akureyri. Annað kvöld setur forseti svo Akureyrarvöku.
Á laugardaginn munu forsetahjón heimsækja Listasafnið á Akureyri og opnar forseti þar nokkrar sýningar. Safnið fagnar nú 30 ára afmæli sínu.
Meðal annarra viðburða mætti nefna heimsókn forsetahjóna í Iðnaðarsafnið, þátttöku í Eyrarskokki, vígslu „söguljósastaura“ í Innbænum, heimsókn á Amtsbókasafnið og innlit á tónleika í Hofi. Loks munu forsetahjón sitja kvöldverðarboð bæjarstjórnarinnar í Laxdalshúsi, elsta húsi bæjarins.