Forsetahjón fara í tveggja daga opinbera heimsókn til Akureyrar. Heimsóknin hófst á fundi með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra, bæjarstjórn og sviðsstjórum bæjarins í Ráðhúsinu. Í framhaldinu var gengið um húsið og heilsað upp á starfsfólk en því næst haldið í Listagil þar sem fáni bæjarhátíðarinnar Akureyrarvöku var dreginn að húni með aðstoð leikskólabarna. Þá heimsóttu hjónin Naustaskóla, hlustuðu þar á kynningar nemenda um stefnu skólans og ræddu svo við stjórnendur, kennara og nemendur í kennslustofum. Í Verkmenntaskólanum fræddust forsetahjónin meðal annars um vélstjórnarnám og listgreinabraut auk þess að ræða við nemendur sem nýlega eru fluttir til landsins.
Í hádeginu heimsóttu þau hjúkrunar- og dvalarheimilið Hlíð og ræddu þar við starfsfólk og dvalargesti og þáðu hádegisverð í matsal. Þá komu þau við á Iðnaðarsafninu en þar má sjá hve sterk Akureyri var á sviði margs konar iðnaðar á liðinni öld.
Næst var haldið að Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar, og kynntu forsetahjónin sér þar starfsemina sem felst m.a. í stuðningi við fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá heimóttu þau leikskólann Klappir og vígðu hann. Leikskólinn er svo að segja nýr en dregist hafði að vígja hann vegna kóvíð farsóttarinnar. Þá lá leiðin í Slippinn sem forsetahjón skoðuðu og þar næst hlýddu þau á kynningu á starfsemi sjö fyrirtækja í húsakynnum Slippsins. Loks þáðu forsetahjónin kvöldverð í Laxdalshúsi í boði bæjarstjórnar Akureyrar.
Um kvöldið fóru forsetahjón í Lystigarðinn þar sem forseti flutti ávarp og setti Akureyrarvöku formlega. Í ávarpi sínu minntist forseti fyrstu opinberu heimsóknar forseta Íslands til Akureyrar, rétt eftir lýðveldisstofnun 1944. Í lok ávarpsins færði forseti Akureyrarbæ að gjöf ljósmynd af Sveinn Björnssyni forseta sem tekin var af því tilefni í Lystigarðinum á Akureyri, 4. ágúst 1944. Ávarp forseta við setningu Akureyrarvöku má lesa hér.
Myndasafn frá opinberri heimsókn forsetahjóna til Akureyrar má sjá hér.