Forseti heldur setningarávarp á ársfundi Skógræktarfélags Íslands, sem fram fer á Patreksfirði dagana 1.-3. september. Sameiginlegir gestgjafar fundarins eru Skógræktarfélag Bíldudals, Skógræktarfélag Patreksfjarðar og Skógræktarfélag Tálknafjarðar. Í máli sínu ræddi forseti meðal annars trjárækt og endurheimt votlendis til kolefnisbindingar við Bessastaði. Þá óskaði hann Skógræktarfélaginu gæfu og góðs gengis í öllum störfum þess í þágu lands og þjóðar. Ávarp forseta má lesa hér.
Á fundinum afhenti Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, forseta og Tønnes Svanes, sendifulltrúa Norska sendiráðsins, eintak af bókinni Frændur fagna skógi eftir Óskar Guðmundsson. Bókin fjallar um samskipti þjóðanna í skógarmálum og kemur hún út bæði á íslensku og norsku.
Forseti ræddi á einnig við sjálfboðaliða Skógræktarfélags Íslands sem koma hingað til lands fyrir tilstilli European Solidarity Corps sem aftur er hluti af Erasmus+ áætluninni. Sjálfboðaliðarnir dvelja flestir hér á landi í fimm mánuði og vinna að gróðursetningum og umhirðu skóga víða um land á meðan þeir eru hér.
Loks sat forseti hátíðarkvöldverð Skógræktarfélagsins. Þar var Magnús Gunnarsson, fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Íslands, kjörinn heiðursfélagi þess og færði forseti honum gullmerki félagsins.