Forseti tekur þátt í almenningshlaupi UMFÍ á Patreksfirði í Vesturbyggð, Forsetahlaupinu. Hlaupið er árlegur fjölskylduviðburður sem haldinn er á mismunandi stöðum um landið, en hið fyrsta var hlaupið á Álftanesi 2022. Engin tímataka er í hlaupinu og allir fá þátttökuverðlaun.
Um sjötíu manns hlupu á Patreksfirði og komu þátttakendur víða að af sunnanverðum Vestfjörðum. Í boði voru þrjár vegalengdir, 1 km hlaup sem margir yngstu þátttakendurnir tóku þátt í, 2,5 km hlaup og 5 km hlaup, sem forseti hljóp ásamt hópi hlaupara. Þeirra á meðal var Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafna-Flóka, sem stóð að Forsetahlaupi UMFÍ þetta árið.