• Forseti ásamt Þórdís Sif Sigurðardóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar, á nýja snjóflóðavarnargarðinum við Patreksfjörð.
Fréttir | 03. sep. 2023

Vesturbyggð

Forseti fer í tveggja daga heimsókn til Vesturbyggðar og tekur þar þátt í ýmsum viðburðum. Þeirra á meðal var minningarstund í Patreksfjarðarkirkju vegna krapaflóðanna sem féllu á bæinn fyrir fjórum áratugum. Til stóð að forseti tæki þátt í athöfn vegna flóðanna í janúar síðast liðnum, en af því varð ekki vegna útkalls varðskipsins Freyju, þar sem forseti var þá farþegi um borð. Ávarp forseta var þá flutt við athöfnina og má lesa það hér, en í þetta sinn hitti forseti íbúa og fulltrúa bæjarstjórnar í Patreksfjarðarkirkju, þar sem kveikt var á fjórum kertum til minningar um þau sem létust í flóðunum.

Myndasafn frá ferð forseta um sunnanverða Vestfirði.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, tók á móti forseta á Patreksfirði í Vesturbyggð og fylgdi um  byggðarlagið. Á fyrri degi heimsóknarinnar gengu þau að nýjasta snjóflóðavarnargarðinum fyrir ofan bæinn og að útsýnispalli þar sem forseti fræddist um framkvæmdirnar. Þá var haldið á Látrabjarg, þar sem landvörður Umhverfisstofnunar gekk með forseta meðfram bjarginu. Á bakaleiðinni heimsótti forseti Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti í tilefni af 40 ára afmæli safnsins. Óskar Leifur Arnarsson og Valgerður María Þorsteinsdóttir tóku þar á móti forseta og bæjarstjóra. 

Um kvöldið snæddi forseti kvöldverð ásamt bæjarstjórn Vesturbyggðar og sótti frumsýningu á íslensku kvikmyndinni Kuldi í Skjaldborgarbíói, sem rekið er af Lionsklúbbi Patreksfjarðar.

Á öðrum degi heimsóknarinnar í Vesturbyggð fór Forsetahlaup UMFÍ fram á Patreksfirði. Að því loknu hélt forseti til Tálknafjarðar, en nánar má lesa um þá heimsókn hér. Þá heimsótti forseti Skrímslasetrið á Bíldudal þar sem Valdimar Gunnarsson greindi frá sögu safnsins.

Forseti hélt því næst í Selárdal og heimsótti þar listasafn Samúels Jónssonar. Staðarhaldararnir Elvar Logi Hannesson og Marsibil Kristjánsdóttir tóku þar á móti forseta og veittu leiðsögn um safnið. Að því loknu var forseti gestur á fundi Lionsklúbbs Patreksfjarðar, þar sem hann fræddist um störf félagsins og ræddi eigin fræðastörf er lúta að landhelgismálum Íslendinga.

Heimsókn forseta í Vesturbyggð lauk á hátíðarkvöldverði Skógræktarfélags Íslands. Ársfundur félagsins fór fram í Vesturbyggð dagana 1.-3. september og flutti forseti opnunarávarp fundarins sem lesa má nánar um hér.

Á ferð sinni um sunnanverða Vestfirði heimsótti forseti einnig Tálknafjörð og má lesa um þá heimsókn hér.

Pistill forseta um Vestfjarðaferð.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar