Forseti er heiðursgestur á 100 ára afmælishátíð Íslendingafélagsins í Osló og nágrenni. Félagið stóð fyrir veglegri menningardagskrá, svo kölluðum Ísdögum, 19.–21. október í tilefni af því að öld er liðin frá stofnun þess á fullveldisdaginn þann 1. desember 1923.
Forseti sótti fjölda viðburða á hátíðinni. Þar á meðal voru tveir tónlistarviðburðir, Kvöldvaka með Íslendingakórnum og Óperugala með íslensku tónlistarfólki. Í Gamle Munch safninu opnaði forseti myndlistarsýninguna Frá fyrstu kynnum, þar sem sýnd voru verk íslenskra, norskra og samískra listakvenna, og setti síðar barnamenningarhátíð sem fram fór undir merkjum Ísdaga.
Í Litteraturhuset opnaði forseti bókmenntahátíðina Levende språk skaper litteratur, sem helguð var íslenskum bókmenntum. Þá heimsótti forseti Íslenska söfnuðinn í Noregi í safnaðarheimili þeirra, Ólafíustofu.
Á föstudagskvöld var forseti heiðursgestur í móttöku borgarstjóra Oslóar fyrir meðlimi Íslendingafélagsins í tilefni 100 ára afmælisins. Í ávarpi sínu sagði forseti Ísdagana styrkja enn frekar hin traustu bönd sem tengt hafa Íslendinga og Norðmenn frá fornu fari. Ávarp forseta má lesa hér á íslensku og á norsku.
Í Osló átti forseti einnig fund með Haraldi Noregskonungi og var heiðursgestur á fundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins.