Forseti afhendir Íslensku menntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þrjár menntastofnanir, ein félagsmiðstöð og grunnskólakennari eru handhafar verðlaunanna í ár. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum og bárust fjölmargar tilnefningar um verðuga verðlaunahafa um allt land. Markmið Íslensku menntaverðlaunanna er að vekja athygli á og hefja til vegs í samfélaginu það metnaðarfulla og vandaða starf sem unnið er með börnum og ungmennum á öllum skólastigum. Verðlaunaathöfninni var sjónvarpað af RÚV. Myndasafn frá verðlaunaathöfninni.
Handhafar Íslensku menntaverðlaunanna 2023:
Verðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur hlýtur Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ fyrir þróun verkefnamiðaðra kennsluhátta og leiðsagnarnáms. Skólinn hefur verið í fararbroddi á þessu sviði en þar er lögð áhersla á að virkja nemendur til þátttöku og koma til móts við þarfir þeirra með fjölbreyttum og skapandi aðferðum.
Verðlaun fyrir framúrskarandi kennslu hlýtur Fiona Elizabeth Oliver, kennari við Víkurskóla í Reykjavík. Víkurskóli er nýsköpunarskóli og Fiona hefur tekið virkan þátt í þróun skólans og verið verkefnastjóri um innleiðingu og þróun leiðsagnarnáms, en námsmat er eitt af helstu áhugasviðum hennar.
Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni koma í fyrsta sinn í hlut félagsmiðstöðvar. Zelsíus í Árborg hefur, í samstarfi við velferðarþjónustu sveitarfélagsins, lyft grettistaki við að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga. Verkefnið sýnir mikilvægi þverfaglegs samstarfs til að koma til móts við börn eins snemma og unnt er.
Verðlaun fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun hlýtur málarabraut Tækniskólans fyrir þróun einstaklingsmiðaðs náms í málaraiðn. Brautinni hefur á undanförnum árum verið umbylt með þeim hætti að nemendur geta nú tekið námið á eigin hraða, með hliðsjón af hæfniviðmiðum. Kennarar brautarinnar hafa unnið þrekvirki við að semja ítarlegar verkefnalýsingar, kennslumyndbönd og annað efni til stuðnings. Fyrir vikið getur námið farið fram hvar sem er og nemendum á landsbyggðinni er þannig gert kleift að stunda málaranám úr heimabyggð.
Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2023 hlýtur Jafnréttisskóli Reykjavíkur fyrir ómetanlegt starf við að miðla þekkingu til starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva. Skólinn veitir ráðgjöf og stuðning varðandi ýmis málefni sem varða jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði. Starfið nýtist ekki aðeins börnum í höfuðborginni heldur kennurum og öðrum uppalendum óháð búsetu með aðgangi að rafrænni verkfærakistu sem skólinn hefur byggt upp. Jafnréttisskólinn var stofnaður árið 2013 og á því tíu ára afmæli í ár.
Pistill forseta um afhendingu Íslensku menntaverðlaunanna 2023.