Forseti flytur opnunarávarp á heilbrigðisþingi 2023 sem haldið er í Hörpu í Reykjavík. Þetta er sjötta árið í röð sem heilbrigðisráðuneytið efnir til heilbrigðisþings þar sem fjallað er um heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustu í nútíð og framtíð. Að þessu sinni var sjónum beint að tækifærunum sem felast í nýtingu margvíslegra heilbrigðisgagna, stafrænnar þjónustu og gervigreindar. Þar sem Ísland gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni var þingið í ár tileinkað norrænu samstarfi, með aðkomu fjölþjóðlegra gestafyrirlesara. Dagskráin fór fram á ensku með yfirskriftinni „Data and Digitalization: Crafting the Future of Sustainable Healthcare.“
Í máli sínu minnti forseti fyrst á þær hamfarir sem dunið hafa yfir í Grindavík og nágrenni að undanförnu og benti á þrjá meginþætti sem tengja má við umbætur í öflugu heilbrigðiskerfi. Í fyrsta lagi hefðu forvirkar aðgerðir sannað gildi sitt í jarðskjálftunum miklu að því leyti að mannvirki eru sterkbyggðari hér á landi en víða annars staðar í heiminum. Í heilbrigðisþjónustu er að sama skapi brýnt að horfa til forvirkra aðgerða, ekki síst á sviði lýðheilsu. Í öðru lagi hafa eldgosafræðingar, jarðskjálftafræðingar og aðrir byggt sínar spár, viðvaranir og tillögur um varnir á vísindalegum grunni, hvers kyns gögnum og mælingum með margvíslegum hætti. Loks hafi Íslendingar snúið smæð sinni í styrk með því að sýna órofa samstöðu og samhug og slíkur andi geti líka gagnast vel í viðleitni okkar til að bæta heilbrigðisþjónustu í landinu.