Forseti flytur ávarp á 25 ára afmælisráðstefnu Samtaka ferðaþjónustunnar og afhendir nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar, sem ætlað er að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Í ár komu verðlaunin í hlut Pink Iceland, sem þjónustar fólk við skipulagningu hjónavígslna á Íslandi. Einnig var veitt nýsköpunarviðurkenning ferðaþjónustunnar og hana hlaut Skriðuklaustur á Fljótsdalshéraði.
Þetta er í annað sinn sem Pink Iceland hlýtur þessi verðlaun fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf, en fyrra skiptið var árið 2012. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Pink Iceland hafi búið til nýjan markað með nýsköpun í þjónustu og upplifun sem hafi margföldunaráhrif í íslensku hagkerfi. Þrátt fyrir að covid 19 hafi kippt undan félaginu rekstrargrundvellinum hafi stjórnendum og starfsmönnum tekist að skapa arðsamt vaxtarfyrirtæki á ný.