Forseti þakkar þeim sem kenna íslensku sem annað tungumál við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á degi íslenskrar tungu. Efnt var til móttöku fyrir fulltrúa Ísbrúar, félags kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál og afhenti forseti Þorbjörgu Halldórsdóttur, formanni Ísbrúar, þakkarskjal.
Við sama tækifæri fékk forseti afhenta myndaorðabókina Orð eru ævintýri sem nýverið kom út hjá Menntamálastofnun. Í bókinni er grunnorðaforða íslenskunnar komið til skila með myndrænum hætti og er hún bæði ætluð börnum og nemendum sem læra íslensku sem annað mál.
Félagið Ísbrú var stofnað árið 1999. Það er vettvangur fyrir kennara til að fá og veita faglegan stuðning og fræðslu um nám og kennslu í íslensku sem öðru tungumáli á öllum skólastigum. Starf félagsins hefur vaxið ár frá ári eftir því sem innflytjendum fjölgar. Nemendur með erlendan bakgrunn nálgast nú 20% af heildarfjölda nemenda í íslensku skólakerfi.