Forseti flytur ávarp og sækir minningarathöfn um þau sem látist hafa í umferðinni. Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa og eru athafnir haldnar árlega um allan heim af því tilefni. Viðburðurinn var haldinn við þyrlupallinn hjá Landspítalanum í Fossvogi í Reykjavík.
Í ávarpi sínu minnti forseti á mikilvægi árvekni og varkárni í umferðinni, þakkaði öllu viðbragðsfólki ómetanleg störf þegar voða ber að höndum og bað viðstadda og þjóðina alla að hugsa hlýtt til þeirra sem misst hafa ástvini eða slasast illa í umferðarslysum.
Einnig tóku til máls Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Inda Hrönn Björnsdóttir, neyðarvörður hjá 112 og eiginkona Óskars Aðils Kemp sem slasaðist alvarlega í umferðarslysi fyrir fimm árum.