Forseti og forsetafrú heimsækja Reykjavíkurborg í boði Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Þetta var fyrsta opinbera heimsókn forseta Íslands til Reykjavíkur frá árinu 1986 þegar Vigdís Finnbogadóttir heimsótti borgina á 200 ára afmæli hennar. Forsetahjón kynntu sér starfsemi Reykjavíkurborgar, þróun hennar og breytta samfélagsgerð, einkum í nýrri hverfum borgarinnar austan Elliðaáa. Í lok dags bauð Reykjavíkurborg til fjölskyldudagskrár á Kjarvalsstöðum. Í ræðu sinni á Kjarvalsstöðum sagði forseti að Íslendingar séu nú þéttbýlisþjóð, enda búi tæpur þriðjungur landsmanna í Reykjavík og tveir þriðju á höfuðborgarsvæðinu.
„Fyrir um hundrað árum voru aðeins um 15% íbúa Reykjavíkur fæddir þar, aðrir til sveita eða í þorpum og kaupstöðum á landsbyggðinni. Nú er öldin önnur, allt önnur. Borgarbörn koma í heiminn og það er frábært; þetta heiti má alls ekki vera lastmæli. Þar að auki er nær fjórðungur borgarbúa af erlendum uppruna og borgarmenningin með allt öðrum brag en áður. Öll þessi þróun var ekki þrautalaus og við þurfum að sjálfsögðu að láta þá falla vel saman, ferska strauma samtímans og góð gildi hins liðna. Þannig mun borgin okkar áfram blómstra og dafna og landið allt."
Ræðu forseta alla má lesa hér.
Frá miðborg í Breiðholt, Árbæ og Grafarvog
Opinbera heimsókn forsetahjónanna hófst í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Arna Dögg Einarsdóttir, eiginkona hans, tóku á móti forsetahjónunum, ásamt Skólahljómasveit Vestur- og Miðbæjar. Borgarstjóri bauð borsetahjónum að skrifa ósk á óskatré Yoko Ono í almannarými ráðhússins. Forsetahjón heilsuðu svo upp á starfsfólk borgarinnar en einnig starfsfólk Grindavíkurbæjar, sem hefur aðstöðu í Ráðhúsinu um þessar mundir. Að því loknu áttu forsetahjón morgunverðarfund með yfirstjórn og borgarstjórn í Borgarstjórnarsal. Sviðsstjórar fagsviða hjá borginni gerðu þar grein fyrir lykilþáttum sinnar starfsemi á velferðarsviði, skóla- og frístundasviði, umhverfis- og skipulagssviði og menningar- og ferðamálasviði. Frá ráðhúsinu var haldið í þjónustuver Reykjavíkurborgar í Borgartúni og rætt við starfsfólk í framlínu á þjónustu- og nýsköpunarsviði.
Frá miðborg Reykjavíkur lá leið í Breiðholtið. Í leikskólanum Ösp í Fellahverfi hlýddu forsetahjón og borgarstjórahjón á söng barna, fengu kynningu frá fagstjóra á verkefninu „Fellahverfisleiðin" og fræddust um samtarf leik- og grunnskóla um málþroska og læsi í Fellahverfi. Í hverfinu er hæsta hlutfall barna af erlendum uppruna í Reykjavík og í leikskólanum Ösp hafa ríflega 85% barnanna annað heimamál en íslensku, sem setur mark sitt á leikskólastarfið.
Í Gerðubergi fengu forsetahjón kynningu á öflugu starfi fjölskyldumiðstöðvarinnar þar sem er fjölbreytt félagsstarf alla virka daga. Sendiherrar Breiðholts sögðu frá sínu starfi, en hvert þeirra er fulltrúi ákveðins menningar- eða málhóps í hverfinu, miðla upplýsingum til þeirra og koma skoðunum þeirra á framfæri við borgina. Karlakórinn Kátir karlar, sem hefur hæstan meðalaldur karlakóra á landinu, söng fyrir gestina og boðið var upp á veitingar á kaffihúsinu Cocina Rodriguez.
Gengið var frá Gerðubergi í Austurberg þar sem 800 unglingar úr öllum grunnskólum Breiðholts tóku á móti forsetahjónum og borgarstjórahjónum við lúðraþyt frá C sveit Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts. Formenn nemendafélaga Breiðholtsskóla, Fellaskóla, Ölduselsskóla, Hólabrekkuskóla og Seljaskóla buðu gestina velkomna áður en forseti og borgarstjóri ávörpuðu samkomuna. Næst var ekið í Breiðholtsskóla þar sem nemendur á miðstigi skólans tóku á móti forsetahjónum og borgarstjórahjónum. Starfsemi íslenskuvers skólans var kynnt, en þar byrja börn sem nýflutt eru til landsins nám í íslensku.
Næst var litið við hjá „Betri borgurum", íþróttahóp eldri borgara í Fimleikahúsi Fylkis í Árbæ. Þaðan var haldið í Borgir, félagsmiðstöð og matarþjónustu í Spönginni þar sem boðið var til hádegisverðar með Korpúlfum, félagi eldri borgara í Grafarvogi og sönghópurinn Korpusystkin söng undir stjórn Helga Hannessonar.
Eftir hádegi hélt heimsóknin áfram í Grafarvogi þar sem forsetahjón og borgarstjórahjón heimsóttu Smiðjuna við Gylfaflöt sem er vinnu- og virknimiðstöð fyrir fatlað fólk. Þaðan var ekið á Gufunesið þar sem kvikmyndaver og fyrirtæki í skapandi greinum hafa tekið yfir gamla iðnaðarhverfið. Farið var í fyrirtækið Kukl, sem sérhæfir sig í tækjaleigu til framleiðslufyrirtækja, og kvikmyndaver Rvk Studios heimsótt.
Farið var í ísbíltúr og áð í hverfisjoppunni Skalla í Hraunbæ, þar sem forsetahjónum, borgarstjórahjónum og fylgdarliði var boðinn rjómaís í brauðformi. Þá var ekið í hverfismiðstöðin í Úlfarsárdal, en þar tengjast skóli, bókasafn, íþróttahús og nýjasta sundlaug borgarinnar, Dalslaug, í einum kjarna.
Heimsóknin austan Elliðaáa lauk í Elliðaárdalnum sjálfum þar sem starfsfólk Orkuveitunnar tók á móti forsetahjónum og borgarstjórahjónum og kynnti þeim sögu og starfsemi orkuveitunar. Loks var ekið á Kjarvalsstaði þar sem opinberri dagskrá lauk með fjölskylduskemmtun. Forseti færði þar borgarstjóra að gjöf ljósmynd sem tekin var af fyrsta forseta lýðveldisins, Sveini Björnssyni, á fyrsta starfsdegi hans í embætti þann 18. júní 1944 þegar hann ávarpaði landsmenn frá miðborg Reykjavíkur.
Heimsókn forsetahjóna til Reykjavíkur lauk með hátíðarkvöldverði í Höfða í boði borgarstjóra.
Sjá pistil forseta um opinbera heimsókn: Reykjavík, hvað ætlar þú að verða?