Forseti sendir kveðju til Grindvíkinga sem hittast á íbúafundi í Laugardalshöll. Forseti er staddur í Vestmannaeyjum og las Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, kveðjuna upp fyrir hans hönd. Á fundinum sitja fyrir svörum Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands, Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum og Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri hjá almannavörnum og stjórnandi þjónustumiðstöðvar í Tollhúsinu.
Kveðja forseta var svohljóðandi:
„Ágætu Grindvíkingar, forsætisráðherra og aðrir fulltrúar stjórnvalda. Ég sendi hlýjar kveðjur til ykkar sem sækið þennan íbúafund. Þær sendi ég frá Vestmannaeyjum, hef verið hér í dag og ætla að fylgjast með landsleiknum á eftir í hópi aldraðra Eyjamanna og fleiri eyjarskeggja. Hér vilja allir koma á framfæri góðum óskum til ykkar. Hér vita svo margir af eigin reynslu hvernig það er að þurfa að yfirgefa heimili sín í skugga jarðhræringa og eldsumbrota.
Í nýliðinni viku urðu ógnvænleg og skelfileg straumhvörf í og við Grindavík. Við vitum að sjálfsögðu ekki fyrir víst hvernig öllum þessum hremmingum mun vinda fram en við vitum þó núna að ekkert verður sem fyrr. Nú þarf nýjar lausnir og ný svör – og nú þarf ný heimili til lengri eða skemmri tíma því að heimili er svo mikil kjölfesta í daglegu lífi. Þetta þarf að vera sameiginlegt markmið okkar Íslendinga. Það er erfitt en það er ekki ómögulegt. Og það sem ekki er ómögulegt – það er mögulegt.
Ég ítreka góðar kveðjur mínar til ykkar allra."