Forseti afhendir nýsköpunarverðlaun við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2023. Að þessu sinni hlutu verðlaunin þeir Gonzalo Patricio Eldredge Arenas og Heiðar Snær Ásgeirsson fyrir verkefnið Umhverfisvænt sementslaust AlSiment steinlím. Báðir eru þeir meistaranemar, Heiðar Snær í efnaverkfræði við DTU Tækniháskólann í Danmörku en Gonzalo nemur jarðhitaverkfræði við Háskóla Íslands.
Verkefnið sýnir fram á fýsileika þess að nota sementlaust steinlím sem bindiefni fyrir steypu, til að draga úr kolefnisspori í byggingariðnaði. Um 7-8% af losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum stafar af framleiðslu sements. Sementslaust steinlím er hins vegar hægt að framleiða úr hliðarafurðum frá þungaiðnaði, en einnig frá náttúrulegum uppsprettum eins og jarðhitakísli og eldfjallaösku, sem eru sérstaklega aðgengileg á Íslandi.
Leiðbeinendur verkefnisins voru Sunna Ólafsdóttir Wallevik og Dr. Kristján Friðrik Alexandersson, framkvæmdastjórar hjá Gerosion, ásamt Dr. Sigrúnu Nönnu Karlsdóttur, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.
Alls voru sex öndvegisverkefni tilnefnd til verðlaunanna í ár. Þau eru unnin af háskólanemum í samstarfi við leiðbeinendur og fyrirtæki og hlutu þau öll viðurkenningu:
• Greiningarkerfi fyrir heilsugæsluna - Einkenni.is: Baldur Olsen og Kári Steinn Hlífarsson tölvunarfræðinemar og Magnús Friðrik Helgason nemi í hugbúnaðarverkfræði, allir við Háskólann í Reykjavík.
• Nýsköpun fyrir snemmgreiningu brjóstakrabbameina: Magnús Gauti Úlfarsson, nemi í lyfjafræði við Háskóla Íslands.
• Rauntíma sjávarfalla- og sjávarhæðarspá við Ísland: Rakel María Ellingsen Óttarsdóttir, nemi í hagnýttri stærðfræði við Háskóla Íslands.
• Stjórn DNA metýlunar í ísóformnotkun í taugaþroska: Katrín Wang, læknanemi við Háskóla Íslands.
• Umhverfisvænt sementslaust AlSiment steinlím: Heiðar Snær Ásgeirsson, nemi í efnaverkfræði við DTU Tækniháskólann í Danmörku, og Gonzalo Patricio Eldredge, nemi í jarðhitaverkfræði við Háskóla Íslands.
• Viðbrögð við áreitni innan lögreglu: Sólveig María Thomasdóttir, nemi í hagnýtri jafnréttisfræði við Háskóla Íslands.
Nánari upplýsingar um hvert verkefni má finna á vef Rannsóknamiðstöðvar Íslands – Rannís.