Forseti tekur þátt í viðburðum í Skíðaviku Ísafjarðar. Hún hefur verið haldin um páska frá árinu 1935 og er því elsta bæjarhátíð landsins.
Skíðafélag Ísafjarðar, sem fagnar 90 ára afmæli í ár, hefur átt veg og vanda að skíðavikunni frá upphafi. Í tímans rás hefur hátíðin vaxið og dafnað og er nú fjölbreytt menningarhátíð með viðamikilli skemmtidagskrá alla páskahelgina. Forseti heimsótti brekkurnar í Tungudal og ræddi þar við skíðafólk.
Forseti heiðraði einnig Jón Pál Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Norðurtangans, sem útnefndur var heiðursborgari Ísafjarðarbæjar um páskahelgina. Jón Páll er sá þriðji sem hlýtur þessa nafnbót síðan það sveitarfélag varð til 1996 og sá sjötti þegar Ísafjarðarkaupstaður er talinn með. Jón Páll hefur skrifað fjölda rita um þætti í sögu Ísafjarðar, Vestfjarða og íslensks sjávarútvegs. Forseti heimsótti Jón Pál og árnaði honum heilla.
Á skírdag opnaði forseti myndlistasýningu leikskólabarna við útiathöfn á Silfurtorgi í miðbæ Ísafjarðar. Listaverk barnanna hafa þemað „páskar á Ísafirði“ og verða þau til sýnis um skeið víða í bænum. Þá sótti forseti opnun myndlistarsýningarinnar Haminn neisti í Listasafni Ísafjarðar í Safnahúsinu. Þar sýnir Ragnhildur Weisshappel ný verk unnin úr sykurmolum og gifsi.
Samhliða Skíðaviku Ísafjarðarbæjar fór tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fram í 20 sinn. Í tilefni afmælisins flutti forseti ávarp við opnun hátíðarinnar og sótti aðra viðburði henni tengdri.
Pistill forseta: Syngjum lag, spilum spil, þá er gott að vera til