Forseti og forsetafrú heimsækja Þjóðminjasafn Skotlands. Þar kynntu þau sér kölluðu Lögréttutjöldin svonefndu. Þau eru talin hafa verið í Lögréttuhúsinu á Þingvöllum á síðari hluta 18. aldar en voru seld skoskum ferðamanni árið 1858 og eru nú í eigu Þjóðminjasafns Skotlands. Þegar þau voru tekin úr landi höfðu þau verið á Bessastöðum í þónokkurn tíma.
Með í för var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem hefur beitt sér fyrir því að fá tjöldin lánuð til Íslands í tilefni 80 ára afmælishátíðar lýðveldis á Íslandi. Tjöldin verða flutt til Íslands snemmsumars og verða hluti af sýningu Þjóðminjasafns Íslands, í samstarfi við Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Forstjóri Þjóðminjasafnsins, Dr. Christopher Breward, tók á móti forseta og föruneyti ásamt Ian Russell formanni stjórnar safnsins. Heimsóknin á Þjóðminjasafnið er liður í Skotlandsferð forsetahjóna. Markmið ferðarinnar er að styrkja enn frekar vinabönd Íslendinga og Skota, með áherslu á sögu og menningu þjóðanna.
Á slóðum íslenska þjóðsöngsins
Frá Þjóðminjasafninu lá leiðin að Þjóðskjalasafni Skotlands, þar sem íslensk handrit eru varðveitt. Meðal annars er þar að finna fyrstu drögin að Lofsöng sem síðar varð íslenski þjóðsöngurinn.
Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið við ljóð Matthíasar Jochumssonar þegar þeir voru báðir í Edinborg. Hvort tveggja var unnið í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874 og er verkið því 150 ára um þessar mundir. Minningarskjöldur um þjóðsönginn er við heimili Sveinbjörns að Londonstræti 15 í Edinborg og heimsótti forseti einnig staðinn til að skoða skjöldinn.
Sjá fleiri fréttir frá Skotlandsferð forsetahjóna: Forsætisráðherra Skotlands, Edinborgarháskóli, Málefni Skotlands.