• Forseti flytur fyrirlestur við Edinborgarháskóla.
  • Sir Peter Mathieson, rektor Edinborgarháskóla, ásamt forseta.
  • Forsetahjón kynna sér íslenskar bækur og handrit úr safni Edinborgarháskóla.
  • Forsetahjón í Edinborgarháskóla.
  • Sir Peter Mathieson, rektor Edinborgarháskóla, ásamt forsetahjónum.
Fréttir | 16. apr. 2024

Edinborgarháskóli

Forseti heimsækir Háskólann í Edinborg og flytur þar opinn fyrirlestur við Old College. Viðburðurinn var liður í Skotlandsferð forsetahjóna sem nú stendur yfir. Markmið ferðarinnar er að styrkja enn frekar vinabönd Íslendinga og Skota, með áherslu á sögu og menningu þjóðanna.

Fyrirlestur forseta bar yfirskriftina „Iceland the Brave: The power and pitfalls of patriotism in a globalized world" Fjallaði hann um þann mun sem gera verður á heilbrigðri ættjarðarást og öfgakenndri þjóðernishyggju þar sem alið er á tortryggni og jafnvel hatri í garð annarra í nafni þjóðareiningar. Forseti gerði söguleg tengsl Íslands og Skotlands einnig að umtalsefni og minnti á hættur sem geta falist í því að beita liðinni tíð sem vopni í þjóðmálumræðu samtímans.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var með í för. Þau forseti áttu fund með Sir Peter Mathieson, rektor Edinborgarháskóla, og aðstoðarrektornum Dr. James Smith áður en fyrirlesturinn fór fram. Þá gafst forseta og ráðherra kostur á að kynna sér íslenskar bækur og handrit úr safni háskólans. Þeirra á meðal er Guðbrandsbiblía í upprunalegu bandi og fleiri forn rit.

Að fyrirlestrinum loknum hélt forseti til fundar við Humza Yousaf, forsætisráðherra Skotlands.

Myndasafn frá Skotlandsferð forsetahjóna

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar