Forseti heldur að Grímsvötnum í Vatnajökli ásamt liðsmönnum Jöklarannsóknafélags Íslands og fleiri fjallagörpum. Félagið var stofnað árið 1950 og er markmið þess að stuðla að jöklarannsóknum og ferðalögum á jöklum landsins. Starf félagsins byggir á samvinnu vísindamanna og sjálfboðaliða.
Gist var í Jökulheimum, skála félagsins í Tungnaárbotnum, en einnig haldið í hús þess á Grímsfjalli. Fræðst var um sögu félagsins og ferða á ökutækjum um hálendi Íslands og jökla. Þá fræddi Guðfinna Aðalgeirsdóttir, stjórnarmaður í Jöklarannsóknafélaginu og prófessor í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, forseta og föruneyti um eldvirkni undir Grímsvötnum og víðar á Vatnajökli.
Jöklarannsóknafélagið hefur frá árinu 1953 farið árlega vorferð í Grímsvötn og víðar um Vatnajökul þar sem mæld er vatnshæð Grímsvatna, vetrarákoma og fleira. Árlega er rituð samantekt um helstu verkefni vorferðar og birt í Jökli, tímariti félagsins. Vorferð Jöklarannsóknarfélagsins 2024 verður farin um mánaðamótin maí-júní.
Pistill forseta: „Grímsvatnahreppur"