Forseti flytur kveðjuorð á minningarstund um drukknaða sjómenn. Athöfnin fór fram í safnskipinu Óðni, að undirlagi Hollvinasamtaka Óðins sem halda skipinu við af einstakri natni.
Siglt var úr heimahöfn við Sjóminjasafnið í Reykjavík að Garðskaga. Þar var blómsveig varpað í hafið og rós til minningar um alla þá sem hlutu vota gröf á þeim slóðum og nærri þeim með skipunum Hermóði 18. febrúar 1959, Rafnkeli GK 510 4. janúar 1960, Stuðlabergi NS 102 17. eða 18. febrúar 1962, Þorbirni RE 36 25. ágúst 1965 og Sveini Guðmundssyni GK 315 10. september 1992.
Séra Sigurður Kr. Sigurðsson fór með bæn og Vilbergur Magni Óskarsson skipherra flutti einnig minningarorð. Í máli sínu rakti forseti hvernig öryggi sjófarenda hefur aukist til muna undanfarin ár. Einnig vitnaði hann í sorgarkvæði sem flutt var á sérstökum minningarfundi á Alþingi degi eftir Hermóðsslysið og tveimur dögum eftir viðlíka fund vegna þeirrar harmafregnir að togarinn Júlí hefði farist með 30 manns á Nýfundnalandsmiðum:
Helfregnir berast nú dag eftir dag
dauðans er mikilvirk hönd,
úthafið syngur sitt útfarar lag
öldurnar grenja við strönd.
Íslenska þjóðin er harminum háð,
hrópar í neyðinni á guðlega náð.