Forseti sækir hátíðardagskrá á sjómannadaginn. Dagurinn hófst með minningarathöfn við Minningaröldur í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík. Á minnisvarðann eru letruð nöfn drukknaðra sjómanna og annarra sæfara. Blómkrans var lagður á minnisvarðann og stóð Landhelgisgæslan heiðursvörð.
Að því loknu sóttu forsetahjón sjómannadagsmessu Grindvíkinga sem fram fór í Vídalínskirkju í Hafnarfirði. Sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur predikaði en forseti flutti ávarp.
Síðdegis sótti forseti hátíðarathöfn sjómannadagsráðs í Hörpu, þar sem sjómenn voru heiðraðir. Sjómannadagsráð sæmdi þar forseta heiðursmerki sjómannadagsins og afhenti honum afsteypu af styttunni Horft til hafs eftir Inga Þ. Gíslason.