Forseti flytur ávarp á Landsmóti hestamanna sem haldið er í Víðidal í Reykjavík. Í máli sínu minnti forseti á mikilvægi þarfasta þjónsins í sögu þjóðarinnar og ekki síður í landkynningu síðustu áratugi. Ávarp forseta má lesa hér.
Þá þakkaði forseti hestamönnum ljúfa viðkynningu í embættistíð hans. Þá afhenti forseti heiðursviðurkenningu Félags hrossabænda. Hana hlaut Þorvaldur Árnason, doktor í erfðafræði, sem er höfundur útreikninga á kynbótamati íslenska hestsins.
Forseti afhenti einnig Sleipnisbikarinn ásamt Trausta Hjálmarssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, og Nönnu Jónsdóttur, formanni deildar hrossabænda. Stóðhesturinn Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum hlaut bikarinn. Loks afhenti forseti verðlaun í A-úrslitum tölts, ásamt Sigurbirni Bárðarsyni, Guðna Halldórssyni, formanni Landssambands hestamannafélaga, Hirti Bergstað, formanni Fáks og Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur, formanni Spretts.