Fréttir | 23. ágú. 2019

Griðasáttmálinn

Hinn 23. ágúst voru rétt 80 ár liðin frá gerð Molotov-Ribbentropsáttmálans svokallaða. Í leyniviðauka var kveðið á um skiptingu Austur-Evrópu í „áhrifasvæði" Þýskalands og Sovétríkjanna sem þýddi í raun að Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, glötuðu sjálfstæði sínu. Hinn 23. ágúst 1989 minntust íbúar landanna þessa örlagaríka viðburðar með því að taka höndum saman í bókstaflegum skilningi, frá norðurströnd Eistlands, um Lettland að suðurlandamærum Litháens. Aðgerðin vakti heimsathygli og markaði tímamót í sjálfstæðisbaráttu landanna þriggja.

Í tilefni þessara tímamóta sendi forseti kveðju til forseta Eistlands, Lettlands og Litháens, minntist þess ofríkis sem þjóðir þeirra þurftu að þola og fagnaði góðum samskiptum frá sjálfstæðisheimt 1991. Þá þakkaði forseti góðar móttökur í heimsóknum sínum til ríkjanna þriggja á liðnu ári þegar þess var minnst að öld var liðin frá því að þau lýstu yfir sjálfstæði 1918.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar