Fréttir | 25. júní 2021

Forsetafrú á Akureyri

Eliza Reid forsetafrú er heiðursgestur Vísindaskóla unga fólksins, í Háskólanum á Akureyri. Þetta er í sjöunda sinn sem skólinn er haldinn fyrir börn á aldrinum 11-13 ára og í ár var sérstök áhersla lögð á fræðslu um lýðræði, störf Alþingis og forseta Íslands. Forsetafrú ræddi við nemendur og flutti erindi við útskriftarathöfn Vísindaskólans. Einnig átti forsetafrú fund með Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, auk þess að heimsækja fleiri stofnanir og félagasamtök bæjarins. Í Gamla spítalanum ræddi hún við fulltrúa Aflsins - samtaka gegn kynferðis-og heimilisofbeldi, og Bjarmahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Í sama húsnæði undirbúa nú sjálfvsígsforvarnarsamtökin Píeta einnig að opna fyrstu starfsstöð sína utan höfuðborgarsvæðsins. Forsetafrú er verndari Píeta samtakanna og ræddi við fulltrúa þeirra um starfið. Þá átti hún fund með starfsmönnum og notendum grasrótarsamtakanna Grófin geðrækt á Akureyri og snæddi hádegisverð í Fjölsmiðjunni, vinnusetri fyrir ungt fólk sem stendur á krossgötum í lífinu. Loks fékk forsetafrú leiðsögn um Amtsbókasafnið á Akureyri og fundaði með framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands um ferðaþjónustu á svæðinu.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar