Forseti flytur ávarp á málþingi í Reykjavík á vegum Íslandssambands Le Droit Humain, alþjóðlegrar frímúrarareglu karla og kvenna. Rúm öld er liðin frá því reglan hóf störf á Íslandi, með stofnun stúkunnar Ýmis þann 12. mars 1921. Til að fagna tímamótunum var boðað til málþings, með yfirskriftinni Samkennd - Samviska - Samfélag.
Le Droit Humain rekur upphaf sitt til Frakklands á ofanverðri 19. öld. Í reglunni starfa karlar og konur saman að mannrækt, óháð kyni, litarhætti og trúarskoðunum. Hér á landi tilheyra reglunni tíu stúkur í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. Í ávarpi sínu ræddi forseti meðal annars um gildi þess að varðveita hið gamla en fagna um leið ferskum straumum.
Á málþinginu fluttu einnig erindi þau Elín Jónasdóttir, Gunnar Hersveinn, Sigríður Þorgeirsdóttir og Njörður P. Njarvík. Þá heiðruðu málþingið heiðursgestirnir Réne Motro, Æðsti Valdhafi Reglunnar og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.