Fréttir | 29. mars 2023

Mýrdalshreppur

Forsetahjón fara í tveggja daga opinbera heimsókn í Mýrdalshrepp. Þar heimsóttu þau helstu stofnanir sveitarfélagsins og ræddu við íbúa á öllum aldri. Myndasyrpu frá tveggja daga opinberri heimsókn forsetahjóna má sjá hér.

Heimsóknin hófst að morgni þriðjudags á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hjallatúni. Þar þáðu forsetahjón morgunkaffi með heimilisfólki. Næst var farið í Heilsugæslustöðina í Vík þar sem Sigurgeir Már Jensson læknir og Helga Halldórsdóttir hjúkrunarfræðingur tóku á móti þeim en þau hafa sinnt heilbrigðisþjónustu á Vík í tæp 40 ár. Við þetta tækifæri færði Lionsklúbburinn Suðri sveitarfélaginu nýtt líkamsgreiningartæki að gjöf. 

Leiðin lá því næst í Víkurskóla. Nemendur í 10. bekk kynntu fyrir forsetahjónum umhverfisverkefni sem þau vinna að og snýr að mælingu landeyðingar í Víkurfjöru. Eftir innlit í stofur yngri bekkja snæddu forsetahjón hádegisverð með nemendum og kennurum á matsal skólans.

Eftir hádegi litu forsetahjón inn á sveitarstjórnarskrifstofum Mýrdalshrepps þar sem þau ræddu við starfsfólk. Að því loknu áttu þau fund með sveitarstjórn og einnig með enskumælandi ráði sem skipað er fulltrúum íbúa í Mýrdalshreppi af erlendu bergi brotnu. Síðdegis héldu forsetahjón út í Dyrhólaey þar sem landvörður Umhverfisstofnunar fræddi þau um hið friðlýsta svæði. Næst heimsóttu þau listasmiðjuna EY-collection í Garðakoti. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn tóku svo á móti forsetahjónum í slökkvistöðinni í Vík. Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri afhenti þar Ívari Páli Bjartmarssyni slökkviliðsstjóra nýjan tækjabíl og forseti færði viðbragðsaðilum þakkir.

Í Víkurkirkju tók séra Árni Þór Þórsson sóknarprestur á móti forsetahjónum og fræddi þau um kirkjustarfið í Víkurprestakalli. Þá áðu forsetahjón í kaffivagninum Skoolbeans á tjaldsvæði Víkur og fengu að því loknu kynningu á starfsemi brugghússins Smiðjunnar. Um kvöldið bauð sveitarstjórn forsetahjónum til kvöldverðar á Hótel Vík. Þar fengu forsetahjón kynningu á flygli sem sveitarfélaginu var gefinn fyrir tilstilli söfnunarátaks almennings og nutu lifandi tónlistarflutnings Brians R. Haroldssonar, skólastjóra tónlistarskólans í Vík.

Síðari dagur hinnar opinberu heimsóknar hófst með kynningu á sögu prjónaiðnaðar í Vík, í verslun Icewear. Þá heimsóttu forsetahjón leikskólann Mánaland og héldu svo í Kötlusetur, þar sem boðið var í frumkvöðlakaffi með heimagerðum matvælum úr héraði. Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðukona Kötluseturs, leiðsagði forsetahjónum um sýningu um eikarskipið Skaftfelling og verk listakonunnar Sigrúnar Jónsdóttur. Forsetahjónum var einnig boðið í sýndarveruleikaferð um svifflug af Reynisfjalli og ziplínuævintýrið í Grafargili. Loks heimsóttu forsetahjón prjónustofuna Kötlu, sem hjónin Beata Rutkowska og Marek Rutkowski reka.

Síðdegis á miðvikudag voru forsetahjón heiðursgestir á árshátíðarsýningu Víkurskóla á leikritinu Emil í Kattholti eftir Astrid Lindgren í félagsheimilinu Leikskálum. Heimsókninni lauk með hátíðarsamkomu í íþróttahúsi bæjarins þar sem var opið hús fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Í hátíðarræðu sinni ávarpaði forseti íbúa bæði á íslensku og ensku og fagnaði þeim blómlega vexti sem orðið hefur í sveitarfélaginu með nýjum íbúum af erlendum uppruna.

Ávarp forseta á hátíðarsamkomunni í Vík má lesa hér.

Pistill forseta um heimsóknina í Mýrdalshrepp.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar