Forseti hefur þriggja daga opinbera heimsókn til Georgíu með athöfn við forsetahöllina Orbeliani í miðborg Tbilisi. Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, tók á móti forseta með heiðursverði og lúðrasveit lék þjóðsöngva landanna. Síðan var haldið inn í forsetahöllina þar sem forsetarnir funduðu ásamt sendinefndum og ræddu samskipti þjóðanna við fjölmiðla. Upptöku frá fjölmiðlafundi forsetanna má sjá hér og yfirlýsingu forseta Georgíu lesa hér.
Í sendinefnd forseta eru Guðlaugur Þór Þórsson, umhverfis- orku og loftslagsmálaráðherra, og Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, auk embættismanna og fulltrúa frá skrifstofu forseta. Þá fylgir forseta fjöldi fulltrúa úr viðskiptalífinu sem hyggjast kanna möguleika á auknu samstarfi við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku m.a á sviði beinnar nýtingar jarðvarma, vatnsaflsvirkjana og fjárfestinga í loftslagslausnum. Síðar um daginn heimsóttu forseti, ráðherra og sendinefndir tvö fyrirtæki í Tbilisi sem eru með íslenska samstarfsaðila og hafa viðskiptatengsl við Ísland.
Hinni formlegu móttökuathöfn lauk með því að forseti lagði blómsveig við minnisvarða um fallnar þjóðhetjur. Um kvöldið bauð forseti Georgíu svo til kvöldverðar forseta til heiðurs í Orbeliani höllinni.
Myndasafn frá opinberri heimsókn forseta til Georgíu
Fundað um grænar lausnir í orkugeiranum
Á öðrum degi hinnar opinberu heimsóknar var efnt til viðskiptaþings þar sem fulltrúar úr georgíska og íslenska orkugeiranum réðu ráðum sínum. Guðlaugur Þór, umhverfis- orku- og loftslagsmálaráðherra, leiddi viðburðinn ásamt Levan Davitashvili, efnahags- og sjálfbærniráðherra Georgíu, en forseti flutti opnunarávarp.
Sama dag átti forseti tvíhliða fundi með forsætisráðherra Georgíu, Irakli Kohbakidze, og forseta þingsins, Shalva Papuashvili. Á fundunum var rætt um samskipti ríkjanna og leiðir til að efla þau, ekki síst með aukinni samvinnu á sviði loftslagsmála og grænna lausna.
Þá fór forseti í vettvangsferð að stjórnsýslumörkum Suður-Ossetíu, georgísks héraðs þar sem Rússar hafa haft hernámslið allt frá innrás sinni í Georgíu árið 2008. Þar tók Thea Akhvledian, ráðherra sameiningar- og jafnréttismála, á móti forseta og kynnti honum stöðu mannúðarmála á hernumdu svæðunum.
Síðdegis hélt forseti í Tbilisi-háskóla þar sem Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, fylgdi honum á fund rektors og Kakhaber Loria, forstöðumanns norrænudeildar háskólans. Rætt var um fyrirhugað samstarfsverkefnis Snorrastofu við háskólann á sviði rannsókna og annarra samskipta í tengslum við forníslenskar bókmenntir og miðaldarit Georgíumanna.
Loks hélt forseti opinn fyrirlestur við háskólann: „The power and pitfalls of patriotism in a globalized world.“ Þar átti forseti einnig fund með Íslendingafélaginu í Tbilisi.
Varnarmál og vatnsaflsvirkjun
Þriðji dagur opinberrar heimsóknar forseta til Georgíu hófst á öryggis- og varnarmálaráðstefnu þar sem forseti flutti aðalerindið, „Small states and big impact: Iceland on the international scene“.
Að því loknu hélt hann ásamt ráðherra og viðskiptasendinefnd til héraðsins Samtskhe–Javakheti þar sem vatnsaflsstöðin Akhalkalaki var skoðuð. Stöðin er að hluta í eigu Verkís og Landsvirkjun Power, dótturfélags Landsvirkjunar, og hóf starfsemi í nóvember 2022.
Opinberri heimsókn forseta til Georgíu lauk með skoðunarferð um hellaborgina Vardzia sem er á heimsminjaskrá UNESCO.