Eliza Reid forsetafrú sendir kveðju til aðstandenda og viðtakenda Eyrarrósarinnar, viðurkenningar sem veitt er framúrskarandi verkefni utan höfuðborgarsvæðins. Forsetafrú hefur verið verndari Eyrarrósarinnar og veitt viðurkenninguna frá árinu 2017. Eyrarrósin er nú veitt annað hvert ár í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og viðurkenningunni fylgir að verðlaunahafinn setur viðburð á dagskrá hátíðarinnar árið eftir. Árið 2023 féll Eyrarrósin í skaut menningarstarfsins í Alþýðuhúsinu á Siglufirði, undir stjórn Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Aðalheiður valdi að standa að sýningu og hátíð sem fram fer nú um helgina í Alþýðuhúsinu undir titlinum INTO Festival.
Forestafrú hafði ekki tök á að vera viðstödd viðburðinn sem fram fór á Siglufirði, en sendi eftirfarandi kveðju sem lesin var upp við setningu viðburðarins. Kveðjuna má lesa hér:
Kæru vinir,
Mér þykir leitt að geta ekki verið með ykkur í eigin persónu í dag. Það hefur verið lærdómsríkt að fá að vera verndari Eyrarrósarinnar og ég hefði svo gjarnan viljað taka fullan þátt í þessum viðburði með ykkur í síðasta skiptið.
En hvað sem því líður þá eruð þið nú saman komin á gleðistund! Ég bið fyrir innilegar hamingjuóskir til Aðalheiðar og teymis hennar hjá Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem tóku á móti verðlaununum í fyrra og sýna nú hvað í þeim býr með því að efna til þessarar hátíðar. Ég efast ekki um að INTO Festival slái í gegn. Til hamingju, enn og aftur.
Á þeim átta árum sem ég hef notið þess heiðurs að vera verndari Eyrarrósarinnar hef ég fengið tækifæri til að ferðast um landið og afhenda verðlaunin á Hjalteyri, í Neskaupsstað, í Garðinum í Suðurnesjabæ, á Patreksfirði og Hvammstanga. Árið 2020 voru verðlaunin reyndar afhent á Bessastöðum þar sem ófært var til Seyðisfjarðar vegna veðurs.
Það voru sannkölluð forréttindi að fá að kynnast öllu því kraftmikla fólki sem hefur fengið verðlaunin gegnum tíðina fyrir að stuðla að iðandi og kraftmikilli listasenu um landið allt. Ég veit satt að segja ekki til þess að nein önnur þjóð geti státað af því að jafnvel smæstu bæjarfélög, með nokkur þúsund eða jafnvel bara nokkur hundruð íbúa, bjóði upp á brúðusýningar, þungarokkshátíðir eða alþjóðlegar myndlista- og kvikmyndahátíðir, svo fátt eitt sé talið. Í ofanálag er svo fjöldi annarra verkefna sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar ár hvert.
Þessi ótrúlegi sköpunarkraftur er það sem knýr framþróun og nýsköpun í samfélaginu. Gerður Kristný fangar þennan kraft svo vel í ljóði sínu, Kveðja frá Ararat, sem ég vitna til hér:
Þegar vatnið nær mér
upp undir handarkrika
sendir Guð mér örk
hvíta örk að brjóta saman í bát
Árnarnar legg ég til sjálf
tálga þær úr
fjöðrum fugla
Ég sendi kærar þakkir til allra þeirra, sem styrkja Eyrarrósina, og líka til skipuleggjenda Listahátíðar. Þakkir til fólksins á bak við Alþýðuhúsið, til allra Eyrarrósarhafa og ykkar sem tilnefnd eruð og síðast en ekki síst þakkir til ykkar sem mætið til að njóta afraksturs sköpunargleðinnar. Takk, öll sömul!