Fréttapistill | 15. apr. 2020

Vigdís Finnbogadóttir er níræð í dag

Kæru landsmenn! Vigdís Finnbogadóttir er níræð í dag. Ég sendi henni heillaóskir í tilefni þessara miklu tímamóta. Um leið og ég óska henni alls velfarnaðar þakka ég drjúg störf á langri ævi og farsælt framlag í þágu þjóðarinnar. Sess hennar í þjóðarsögunni er tryggur og sömuleiðis á alþjóðavettvangi.

Ég þakka Vigdísi ljúf kynni í áranna rás. Á forsetastóli gladdist hún með okkur Íslendingum og hvatti þjóð sína til dáða – en sýndi jafnframt samhug og samúð á sorgarstundum. Árin á Bessastöðum voru ekki án átaka, ágreinings og áfalla en þannig hefur það aldrei verið og mun aldrei vera. Ég þakka Vigdísi innilega góð ráð og velvild eftir að við Eliza og börnin fluttum hingað á Álftanesið.

Á heimasíðu forsetaembættisinslesa stutta kveðju mína til Vigdísar sem flutt verður í ríkissjónvarpinu í kvöld, í þætti henni til heiðurs. Hann kemur í stað afmælishátíðar sem ekki var unnt að halda vegna veirunnar sem nú herjar á okkur. Á síðunni er einnig frekara efni sem tengist afmælinu, meðal annars erindi sem ég flutti á málþingi á Akureyri síðastliðið haust í tilefni af því að Vigdís var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann á Akureyri.

Þessari færslu fylgir falleg mynd af henni í hópi hressra stúlkna á málþinginu. Þarna tengjast kynslóðirnar saman, fallegur vitnisburður um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur. Aftur til hamingju, kæra Vigdís!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 15. apríl 2020.

  • Þarna tengjast kynslóðirnar saman, fallegur vitnisburður um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar