Það var gaman og gagnlegt að taka þátt í hátíðahöldum og fundum í París í nýliðinni viku. Þegar rétt öld var liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, hinn 11. nóvember 2018, var fyrsta Friðarþingið haldið í París, og ár hvert síðan. Þingið er góður vettvangur umræðna um friðarmál og leiðir til framfara fyrir mannkyn. Um helgina var því einnig fagnað að 75 ár eru um þessar mundir frá stofnun UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar hafa tekið virkan þátt í starfi hennar og notið góðs af því á ýmsa vegu. Í París flutti ég einnig opnunarerindi á ráðstefnu á vegum Fransk-íslenska viðskiptaráðsins um mögulegt samstarf Íslendinga og Frakka á sviði vetnisframleiðslu. Einnig átti ég fundi með öðrum þjóðarleiðtogum.
Nánari fregnir af Frakklandsför minni og öðrum erindum síðustu viku má að venja sjá á vefsíðu embættisins. Má þar til dæmis nefna móttöku fyrir þátttakendur á Heimsþingi kvenleiðtoga, ávarp á degi gegn einelti, fundi með sex nýjum sendiherrum og fund með forsætisráðherra um stöðu mála í viðræðum fulltrúa stjórnarflokkanna þriggja um frekara samstarf nú að loknum alþingiskosningum. Senn dregur til tíðinda í þeim efnum.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 15. nóvember 2021.