Ég óska landsmönnum öllum til hamingju með dag íslenskrar tungu. Hann höldum við hátíðlegan 16. nóvember og minnumst um leið Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, sem fæddist þann dag árið 1807. Hann steig raunar af stalli sínum í tilefni dagsins og heimsótti gamlar slóðir, meðal annars á Bessastöðum þar sem Eliza tók á móti honum og þið munuð sjá meira af á samfélagsmiðlum í dag.
Jónas var sex ár í Bessastaðaskóla, nam sín fræði þar sem borðstofan er núna í Bessastaðastofu og fékk ætíð góðan vitnisburð. Ævin varð ekki löng. Jónas lést árið 1845, aðeins 37 ára gamall, en hafði þá fært okkur þau ljóð sem lifa munu á meðan íslenska er töluð í heimi hér. Og stuðlum nú að því, bjartsýn og víðsýn!
Þremur árum eftir andlát Jónasar Hallgrímssonar lét Stefán Gunnlaugsson landfógeti kallara sinn ganga um götur og stíga Reykjavíkur og hrópa: „Íslensk tunga á við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi.“ Fyrir þremur dögum kom ég heim frá París, naut alúðar og samviskusemi áhafnar í flugvél Icelandair en leiddist þó að ávörp til okkar farþeganna voru fyrst flutt á ensku. Við Íslendingar skiljum flestir það mál þannig að þegar boðskapurinn kom svo á eftir á íslensku fór hann inn um annað eyrað og út um hitt. Mér er sem ég heyri og sjái gestgjafa mína góðu í Frakklandi flytja fregnir sínar fyrst á ensku og svo frönsku. „Íslensk tunga á við í íslenskri flugvél, hvað allir athugi.“
Njótið dagsins, góðar stundir!
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 16. nóvember 2021.