Í dag er hálf öld frá því að Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid varð drottning í Danmörku. Ég sendi henni heillaóskir fyrir mína hönd og íslensku þjóðarinnar. Margrét II Danadrottning hefur heimsótt okkur Íslendinga í áranna rás og forsetar Íslands hafa notið gestrisni hennar og góðvildar ytra. Hér fylgja nokkrar myndir frá slíkum viðburðum.
Í tíð Margrétar hafa samskipti Íslands og Danmerkur verið ljúf og traust. Vorið 1971, tæpu ári áður en hún settist á drottningarstól, náðu dönsk og íslensk stjórnvöld samkomulagi um vörslu íslenskra fornhandrita hér heima og úti í Kaupmannahöfn eftir að þau höfðu verið varðveitt um aldir ytra, seld þangað, gefin eða tekin. Handritin komu heim, flest þeirra sem mest gildi hafa fyrir íslenskan þjóðararf. Enn er rætt um þessi mál og ég veit að Danadrottning vill að þeim handritum, sem eru áfram varðveitt ytra, sé sýndur verðskuldaður sómi. Þau þarf að rannsaka þar áfram og standa vel að námi í fornnorrænum fræðum. Annars er til lítils að geyma handrit þar ytra.
Fyrir hálfri öld var samband Íslands og Danmerkur nánara á ýmsum sviðum en nú er raunin. Dönsku blöðin rötuðu á fleiri heimili en nú, Andrés önd var lesinn á dönsku, kennslubækur voru gjarnan á dönsku, danska það erlenda mál sem Íslendingar kunnu best. Nú er öldin önnur. Sjálfur get ég og vil halda ræður á minni ófullkomnu dönsku og held uppi snakki á því máli eftir bestu getu þegar svo ber undir. En ég man eftir því úr fræðastarfi á norrænum vettvangi að ég kaus frekar að nota ensku – af hverju ættum við Íslendingar að þurfa að nota mál, sem við kunnum ekki endilega það vel, svo að kollegar í Skandinavíu geti látið móðan mása á eigin móðurmáli?
Tímarnir breytast og mennirnir með. Þannig er ég líka fyrsti forseti Íslands sem ekki er fæddur í konungsríki. Áfram verður vinasamband Íslendinga og Dana þó traust. Enn er Danmörk það land, sem flestir Íslendingar halda til, vegna náms eða vinnu erlendis. Ég ítreka heillaóskir til Margrétar II Danadrottningar og óska henni og fjölskyldu hennar alls velfarnaðar.
- - -
Myndasyrpa: Svart-hvíta myndin er frá heimsókn Margrétar Danadrottningar til Íslands árið 1973. Þá er mynd þar sem Vigdís Finnbogadóttir tekur á móti Margréti Danadrottningu á Bessastöðum árið 1986. Hópmyndin er frá ferð forseta Íslands og dönsku drottningarhjónanna til Grænlands árið 2000. Þá er mynd frá opinberri heimsókn forsetahjóna til Danmerkur árið 2017 og að síðustu mynd sem tekin er af Margréti Danadrottningu ásamt forsetahjónum á Bessastöðum árið 2018.
Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.