Fréttapistill | 24. jan. 2022

Strákarnir okkar í Búdapest

Bjart var yfir Búdapest þá daga sem ég var þar í nýliðinni viku. Þangað hélt ég til að fylgjast með strákunum okkar á Evrópumeistaramótinu í handbolta. Nú er nýlokið leik þeirra við Króata. Hann tapaðist naumlega en við getum enn leikið til úrslita þar ytra. Áfram Ísland!

Úti var hreint magnað að fylgjast með þeim baráttuanda sem okkar menn sýndu á vellinum, fyrst í naumu tapi gegn heimsmeisturum Dana og svo í frábærum sigri á móti frönskum ólympíumeisturum. Maður kom í manns stað og enginn skýldi sér á bak við afsakanir, allir reyndu bara að gera sitt allra besta og ekki er hægt að biðja um meira. Ei skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir, sagði Gunnlaugur ormstunga þegar Eiríkur jarl var hissa á að hann haltraði ekki með sár á fæti. Sama gildir þessa daga úti í Ungverjalandi: Við missum menn í einangrun vegna veirusmits en kvörtum ekki undan því.

Í Búdapest átti ég fund með Gergő Bendegúz Cseh, forstöðumanni Sögusafns ungversku leyniþjónustunnar, Historical Archives of the Hungarian State Security. Þar eru varðveitt skjöl þeirrar stofnunar, í tíma að mestu frá lokum seinni heimsstyrjaldar til 1990 eða þar um bil. Þá naut ég leiðsagnar Ferenc Utassy, aðalræðismanns Íslands í Ungverjalandi, um miðborg Búdapest. Ferenc er mörgum Íslendingum að góðu kunnur, kom til Íslands árið 1987, gerðist organisti á Stöðvarfirði og síðar í Garðabæ, náði frábærum tökum á íslensku og er svo sannarlega gott að eiga þennan hauk í horni ytra.

Úti veitti ég Ívari Benediktssyni hjá vefmiðlinum handbolti.is viðtal um Evrópumótið, glæsilega framgöngu strákanna okkar og kosti þess að reisa nýja þjóðarhöll á Íslandi fyrir inniíþróttir. Það spjall má lesa hér.

Og nú bíða Svartfellingar þar ytra. Þeir verða engir aukvisar að eiga við. En mikið er gott að geta stutt landslið Íslands í blíðu og stríðu, ekki síst núna í skammdeginu þegar við þurfum enn að þola ýmsar hömlur á mannamót í þágu sóttvarna. Blessunarlega bendir margt þó til að þeim aðgerðum megi senn aflétta án áhættu. Þetta er allt að koma! Góðar stundir.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

  • Á mögnuðum leik íslenska karlalandsliðsins gegn því franska.
  • Með Gergő Bendegúz Cseh, forstöðumanni Sögusafns ungversku leyniþjónustunnar, Historical Archives of the Hungarian State Security, þar sem varðveitt eru skjöl þeirrar stofnunar frá lokum seinni heimsstyrjaldar til 1990 eða þar um bil.
  • Með Ferenc Utassy, aðalræðismanns Íslands í Ungverjalandi, á göngu um miðborg Búdapest.
  • Ásamt Ferenc Utassy aðalræðismanni Íslands í Ungverjalandi og eiginkonu hans Judit.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar